Innlent

Áform um risahöfn við Langanes

Sveitarfélögin á Norðausturlandi hafa kynnt áform um risahöfn á Langanesi, þá langstærstu á Íslandi, til að þjóna siglingum yfir Norðuríshafið. Á hafnarsvæðinu verður boðið upp á lóðir undir olíu- og gasvinnslustöðvar.

Það er undir Gunnólfsvíkurfjalli við innanverðan Bakkaflóa sem sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafa skipulagt stórskipahöfnina. Þetta er nánar tiltekið í krikanum undir Langanesi, í Gunnólfsvík og Finnafirði, en þar er bæði mjög aðdjúpt og mikið undirlendi.

Gunnólfur Lárusson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir að þessi risahöfn yrði sú langstærsta á Íslandi. Þarna er búið að teikna viðlegukanta upp á 2.500 metra og allt upp í 10 kílómetra.

Spurður hvort þetta séu raunhæfar hugmyndir kveðst Gunnólfur telja að svo sé. Íshafssiglingar nálgist og þá þurfi góða höfn á Íslandi. Þarna sjá menn fyrir sér að verði umskipunarhöfn fyrir risaskip. Höfninni er einnig ætlað að þjóna gas- og olíuvinnslu.

"Olíuhreinsistöð eða gasstöð. Menn eru bara að skoða alla hluti. Það er svo sem ekkert í hendi en menn eru til í allt," segir Gunnólfur.

Sveitarfélögin eru byrjuð að kynna hugmyndina fyrir erlendum fjárfestum og stórveldum, og meira að segja búin að gera bækling á kínversku.

"Við fengum kínverska sendiherrann og frú og aðstoðarmann þeirra hingað í heimsókn. Það var bara virkilega gaman," segir sveitarstjórinn.

Hann segir ljóst að það þurfi stóra samstarfaðila ef þetta eigi að verða að veruleika.

"Það er alveg sama hvaðan gott kemur. Það mega alveg vera Kínverjar, Rússar, Nojarar. Skiptir engu máli."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×