Enski boltinn

Dalglish kom Suarez til varnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luis Suarez í leiknum í gær.
Luis Suarez í leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, var ekki ánægður með að stuðningsmenn Fulham hafi kallað Luis Suarez svindlara í leik liðanna í gær.

Suarez hefur mátt þola ýmislegt á tímabilinu og ásakanir um að hann sýni leikaraskap inn á vellinum hafa verið algengar. Hann skoraði mark í leiknum í gær sem var dæmt af vegna rangstöðu og þá vildi hann fá vítaspyrnu nokkrum sinnum í leiknum, en án árangurs.

Fulham vann svo leikinn, 1-0, með marki Clint Dempsey seint í leiknum. Liverpool var þá búið að missa Jay Spearing af velli með rautt spjald. Suarez var greinilega reiður áhorfendum því eftir leik gaf hann þeim puttann.

„Þetta var hneyksli," sagði Dalglish um hróp og köll stuðningsmanna Fulham. „Við munum reyna að hugsa um Luis eins vel og mögulegt er en mér þætti viðeigandi ef ákveðinn hópur manna myndi byrja að veita honum ákveðna vernd."

„Hann er afar heiðarlegur. Hann getur litið í spegilinn og verið sáttur við sjálfan sig. Ef aðrir geta gert það líka er það hið besta mál. Við biðjum bara um sanngirni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×