Enski boltinn

Grétar Rafn: Erfitt að vera úti í kuldanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar Rafn í leik gegn Fulham fyrr í þessum mánuði.
Grétar Rafn í leik gegn Fulham fyrr í þessum mánuði. Nordic Photos / Getty Images
Grétar Rafn Steinsson segist í staðarblaðið Bolton News í Englandi ánægður með að hafa fengið tækifæri til að sanna sig á ný í byrjunarliði Bolton.

Grétar Rafn átti góðan leik þegar að Bolton vann afar mikilvægan sigur gegn Blackburn fyrr í vikunni en hafði þess fyrir utan lítið komið við sögu nema varamaður á síðustu vikum og mánuðum.

Á tíma var Grétar Rafn ansi aftarlega í goggunarröðinni, á eftir þeim Dedryck Boyata, Joe Riley og David Wheater. Grétar Rafn sýndi þolinmæði og ákvað Owen Coyle, stjóri Bolton, að velja hann í liðið á ný í vikunni.

„Stjórinn veit hvað hann fær frá mér," sagði Grétar Rafn. „Ég er duglegur og legg allt í sölurnar fyrir liðið. Hann veit að ég er klár í slaginn ef hann vill að ég spili. Ef ekki - þá verð ég að vera fagmaður, halda mér í formi og vera til reiðu þegar kallið svo kemur."

Samningur Grétars Rafns við Bolton rennur út í sumar og vonast hann til að ná að sýna að það sé þess virði fyrir félagið að bjóða honum nýjan samning.

„Liðið er það sem mestu máli skiptir. Ég vil spila en ég vil að liðinu gangi vel líka. Vonandi fæ ég nógu marga leiki til að sanna að það ég eigi heima hér."

Hann segir að það hafi ekki verið auðvelt að sætta sig við að fá ekki að spila. „Það er erfitt að vera úti í kuldanum. Maður vill leggja sig fram fyrir liðið og fólkið sem er annt um félagið."

„Sem betur fer sýndi stjórinn mér það traust að leyfa mér að spila í þessum mikilvæga leik [gegn Blackburn] og vonandi gerði ég nóg til að halda sæti mínu í byrjunarliðinu gegn Newcastle á mánudaginn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×