Enski boltinn

Ancelotti vill fá Kaká til Chelsea

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar

Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Roman Abramovich eigandi Chelsea sé hvergi nærri hættur að styrkja lið sitt og Brasilíumaðurinn Kaká hjá Real Madrid er sagður efstur á óskalistanum. Hinn 28 ára gamli Kaká lék í átta ár undir stjórn knattspyrnustjóra Chelsea, Carlo Ancelotti, hjá AC Milan á Ítalíu.

Kaká hefur alls ekki náð sér á strik hjá Real Madrid á Spáni og hnémeiðsli hafa angrað hann í vetur. Chelsea gæti boðið allt að 25 milljónir punda í leikmanninn eða 4,7 milljarða kr.

Ancelotti er sagður hafa mikinn áhuga á að geta still þeim Fernando Torres og Kaká saman í framlínu Chelsea á næsta tímabili. Ancelotti fékk Kaká til AC Milan árið 2003 frá Sao Paulo fyrir 7,2 milljónir punda eða 1,3 milljarða kr. Kaká var keyptur til Real Madrid í júní 2009 fyrir 56 milljónir punda eða 10.5 milljarða kr. Skömmu áður hafði hann verið orðaður við Manchester City og enskir fjölmiðlar töldu að Man City hafi viljað greiða allt að 100 milljónir punda fyrir leikmanninn eða 18,8 milljarða kr.

Varnarmaðurinn Branislav Ivanovic hjá Chelsea er alls ekki á förum frá Chelsea því hann skrifaði undir nýjan samning við félagið til fimm ára og rennur samningurinn út sumarið 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×