Enski boltinn

Stórbrotið sigurmark hjá Rooney í Manchester-slagnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fagnar sigurmarki sínu með Nani.
Wayne Rooney fagnar sigurmarki sínu með Nani. Mynd/Nordic Photos/Getty
Wayne Rooney tryggði Manchester United 2-1 sigur á nágrönnunum í Manchester City með stórbrotnu marki í leik liðanna á Old Trafford í dag. Nani skoraði fyrra markið og lagði upp það síðara en United náði með þessum sigri sjö stiga forskoti á Arsenal sem mætir Wolves seinna í dag.

Wayne Rooney skoraði aðeins tvö mörk í fyrstu fjórtán deildarleikjum tímabilsins en hefur nú skorað þrjú mörk í síðustu þremur leikjum sínum með United.

Manchester City byrjaði vel og David Silva fékk dauðafæri strax á 4. mínútu eftir undirbúing Carlos Tevez en skaut framhjá markinu. Manchester City liðið spilaði fyrri hálfleikinn lengstum vel en það var hinsvegar United sem skoraði eina mark hálfleiksins á 41. mínútu.

Edwin van der Sar átti þá langt útspark sem Wayne Rooney skallaði fyrir fætur Ryan Giggs. Giggs las leikinn vel og átti flotta sendingu inn hlaup hjá Nani sem lagði boltann fyrir sig og skoraði laglega.

Edin Dzeko er hér búinn að skjóta í bakið á David Silva og boltinn er á leiðinni í mark United.Mynd/Nordic Photos/Getty

Roberto Mancini setti Edin Dzeko inn á fyrir James Milner á 60. mínútu og aðeins fimm mínútum seinna var City búið að jafna. City-menn höfðu reyndar heppnina með sér í markinu.

Shaun Wright-Phillips sendi þá fyrir markið og Dzeko skaut í bakið á David Silva og í markið. Silva fær markið skráð á sig þrátt fyrir að vissi lítið hvað væri í gangi.

Wayne Rooney kom hinsvegar Manchester United aftur yfir á 78. mínútu með stórkostlegu marki. Nani sendi boltann fyrir og Rooney skoraði með frábærri hjólhestaspyrnu upp í bláhornið, óverjandi fyrir Joe Hart í markinu.

Meistaravonir Manchester City dóu væntanlega með þessu tapi en liðið er nú átta stigum á eftir United-liðinu og hefur auk þess leikið einum leik meira.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×