Enski boltinn

Abramovich malar enn gull

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roman Abramovich hagnaðist á síðasta ári um 570 milljarða króna, þrjár milljarða punda, en er engu að síður ekki lengur á meðal þriggja auðgustu manna Rússlands.

Abramovich á sextán heimili, sjö bíla og á hlut í sjö fyrirtækjum, þeirra á meðal eignarhaldsfélagið sem keypti Chelsea árið 2003.

Hann gaf upp að hann ætti níu hús og sjö íbúðir. Hann á til dæmis fasteignir í Rússlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og Bretlandi.

Í bílaflota hans má finna BMW, Mercedes Benz, Range Rover og Volkswagen Golf.

Hann er samkvæmt nýjum lista fimmti ríkasti maður Rússlands. Auðæfi hans eru metin á 11 milljarða punda. Sá ríkasti heitir Vladimir Lisin (18,3 milljarðar) og næstir koma Mikhail Prokhorov (14,7), Alisher Usmanov (12,9) og Oleg Deripaska.

Abramovich er þó ekki sá eini í þessum hópi sem hefur brennandi áhuga á íþróttum. Prokhorov á NBA-liðið New Jersey Nets og Usmanov er einn stærsti eigandi Arsenal.

Hann þurfti reyndar ekki að gefa upp hvort hann ætti einkaþotur eða snekkjur en vitað er að hann á eina stærstu snekkju í heimi sem er 164 m löng.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×