Enski boltinn

Eiður Smári: Ætla mér að spila aftur á tímabilinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári er hér á fullu í leik með AEK Aþenu í grísku úrvalsdeildinni.
Eiður Smári er hér á fullu í leik með AEK Aþenu í grísku úrvalsdeildinni. Nordic Photos / Getty Images
Eiður Smári Guðjohnsen ætlar sér að spila fótbolta á ný áður en tímabilinu lýkur í Grikklandi. Hann fótbrotnaði á tveimur stöðum eftir að hann lenti í samstuði við markvörð Olympiakos í leik með liði sínu, AEK Aþenu, í grísku úrvalsdeildinni um miðjan október.

Talið var að hann myndi missa af tímabilinu en Eiður Smári segir enn óvíst hvenær hann muni snúa til baka. Hann verði frá í alls 4-6 mánuði en nú nýverið gekkst hann undir aðgerð þar sem skrúfur voru fjarlægðar úr fótleggnum. Segir hann að það hafi verið afar sársaukafullt.

„Það var ótrúlega vont og engin smá kvöl sem fylgdi því," segir Eiður en hann var vitanlega svæfður fyrir aðgerðina. „Það þurfti að fjarlægja skrúfur sem voru merkilega langar og gengu í gegnum beinið. Verkurinn kom svo eftir að ég vaknaði og var gríðarlega mikill," rifjar hann upp.

Eiður var í endurhæfingu hér á landi bæði fyrr í þessum mánuði og verður áfram hjá Einari Einarssyni, sjúkraþjálfara og einkaþjálfara, fram yfir hátíðirnar. Fjölskylda hans er með honum í jólafríi en að því loknu verður haldið aftur til Grikklands.

Eiður segir að kona sín, Ragnhildur Sveinsdóttir, hafi reynst sér ótrúlega vel í gegnum þessa erfiðu tíma eftir að hann meiddist. „Ég hef fengið fimm stjörnu meðferð hjá henni og er ég henni afar þakklátur fyrir það," segir hann.

Líkaminn í sjokkiEiður Smári hefur upplifað ýmislegt síðan hann fór frá Barcelona árið 2009 en AEK er fimmta félagið sem hann spilar með síðan þá. Svo þegar hann var loksins komin á fulla ferð með AEK varð hann fyrir þessu áfalli.

Hann vissi um leið að meiðslin væru alvarleg. „Það kom ekki beinlínis verkur heldur var líkaminn í hálfgerðu sjokki. Ég þorði í fyrstu ekki að líta niður á löppina þar sem ég hélt að hún væri það illa útlítandi. En svo slæmt var það sem betur fer ekki og brotið nokkuð hreint," segir hann.

„Ég var loksins byrjaður að spila í hverri viku og farinn að aðlagast lífinu í nýju landi. Við fjölskyldan vorum búin að koma okkur vel fyrir og hefur það reyndar ekkert breyst. Það fer vel um okkur."

Hef ekki áhyggjur af kreppunniGrikkland hefur verið mikið í fréttunum í haust vegna gríðarlegra þrenginga í efnahagsmálum og mikils niðurskurðar í opinberum útgjöldum. „Við Íslendingar höfum einhverja reynslu í þessum málum," segir hann í léttum dúr. „En ég hef svo sem ekki spáð mikið í því og fyrst og fremst tók ég þessa ákvörðun út frá fótboltanum. Mér fannst eitthvað spennandi við þá tilhugsun að fara til AEK og það stendur enn."

AEK hefur þó ekki farið varhluta af kreppunni og til að mynda hefur gengið illa að greiða leikmönnum og öðrum starfsmönnum laun. „Það hefur auðvitað áhrif en ekki eitthvað sem heldur manni uppteknum öllum stundum. Ég hef frekar einbeitt mér að því að ná mér aftur góðum af meiðslunum."

Nýr þjálfari hefur breytt mikluÞað hefur einnig gengið á ýmsu inni á vellinum hjá AEK. Liðið tapaði fyrstu fimm leikjum sínum í Evrópudeild UEFA og þegar skipt einu sinni um þjálfara.

„Upphaf tímabilsins í Grikklandi var mjög ruglingslegt og lengi vel óvíst hvaða lið yrðu í efstu deild, meðal annars vegna mútumála sem komu upp. Það tók langan tíma að greiða úr því og við fórum inn í Evrópudeildina án þess að vera búnir að spila deildarleik. Við vorum með marga nýja leikmenn og vorum einfaldlega ekki nógu vel undirbúnir," segir Eiður. „Svo þegar það varð ljóst að við myndum ekki komast áfram þá var ekki mikið lagt í leikina í þeirri keppni."

Nikos Kostenoglou var ráðinn þjálfari í stað Spánverjans Manolo Jimenez hinn 6. október og segir Eiður að síðan þá hafi orðið meira úr liðinu. „Það er komið meira skipulag og agi á leik liðsins. Það leiðinlega er að ég meiddist strax í fyrsta leiknum sem hann stýrði en hann er afar viðkunnanlegur maður og fylgist náið með því hvernig mín endurhæfing gengur."

AEK er nú í þriðja sæti grísku úrvalsdeildarinnar með 28 stig, tveimur á eftir toppliði Olympiakos, sem á leik til góða, og einu stigi á eftir Panathinakos sem á tvo leiki til góða. Liðið vann nýverið fimm leiki í röð en tapaði fyrir Atrimotos, sem er í fjórða sætinu, nú um helgina.

Ætla að spila aftur á tímabilinuEiður fer í aðra myndatöku á fótbrotinu hinn 15. janúar næstkomandi og fær hann þá frekari fréttir af því hvernig endurhæfingin gengur. „Þetta fer allt eftir því hversu fljótt beinið getur tekið við fullum líkamsþunga aftur og hversu vel gengur að byggja upp vöðvana í kring," útskýrir hann.

„Ég hugsa bara um að koma mér sem fyrst aftur af stað. En það er alveg ljóst að ég ætla mér að spila aftur áður en tímabilinu lýkur. Hversu mikið það verður get ég hins vegar ekkert sagt til um eins og er."

Eiður Smári hefur átt erfitt uppdráttar síðustu tvö árin en sér ekki eftir neinum ákvörðunum.

„Það væri alveg hægt að grenja í koddann á kvöldin yfir hinum og þessum ákvörðunum en það myndi engu breyta. Ég ætla frekar að nota orkuna í að ná mér aftur góðum af meiðslunum og ná árangri á vellinum. Síðustu tvö ár hafa þróast leiðinlega en mér er efst í huga að snúa þessu við og enda ferilinn á jákvæðum nótum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×