Enski boltinn

Ekkert jafntefli og sigurliðin héldu öll hreinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hermann Hreiðarsson og félagar hafa fengið eitt stig úr fyrstu tveimur leikjunum.
Hermann Hreiðarsson og félagar hafa fengið eitt stig úr fyrstu tveimur leikjunum. Nordic Photos/Getty
Úrslitin í 2. umferð Championship-deildarinnar á Englandi í gær vöktu nokkra athygli. Tíu leikir fóru fram og lauk engum þeirra með jafntefli. Þá héldu sigurliðin öll marki sínu hreinu.

Erfitt er að fullyrða að þetta sé einsdæmi í ensku b-deildinni en ansi mögnuð staðreynd engu að síður. Félögin sem féllu úr úrvalsdeildinni, Birmingham og West Ham, unnu 1-0 sigra. Blackpool leikur á morgun gegn Peterborough.

Hermann Hreiðarsson var skipt útaf í síðari hálfleik í 0-1 tapi Portsmouth gegn Brighton. Þá var Ívar Ingimarsson ekki í hóp Ipswich sem beið lægri hlut gegn Hull 0-1 á Portman Road. Ívar glímir við meiðsli.

Lærisveinar Sven Göran Eriksson í Leicester töpuðu heima gegn Reading 2-0. Fyrrum Íslendingaliðið með góðan sigur en við miklu er búist af liði Leicester á þessari leiktíð.

Úrslitin

Barnsley 0-1 Southampton

Birmingham 1-0 Coventry City

Crystal Palace 2-0 Burnley

Doncaster 0-1 West Ham Utd

Ipswich Town 0-1 Hull City

Leeds United 0-1 Middlesbrough

Leicester City 0-2 Reading

Millwall 2-0 Nottm Forest

Portsmouth 0-1 Brighton

Watford 0-1 Derby County



Í dag klukkan 14 tekur Cardiff á móti David James og félögum í Bristol City. Aron Einar Gunnarsson verður að öllum líkindum í liði Cardiff sem vann flottan 1-0 útisigur á West Ham í 1. umferð deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×