Innlent

Erfiðast að tilkynna fólki um barnsmissi

Fórnarlamba umferðarslysa var minnst við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í gærmorgun. Viðar Magnússon tók til máls á athöfninni.
Mynd/Einar Magnússon
Fórnarlamba umferðarslysa var minnst við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í gærmorgun. Viðar Magnússon tók til máls á athöfninni. Mynd/Einar Magnússon
„Erfiðasti hlutinn við mitt starf er ekki að sinna þeim sem hafa orðið fyrir slysi. Ef maður hefur góða þjálfun og vinnur í góðu teymi er hægt að gera ótrúlega hluti. En þegar illa fer, og maður lendir í þeirri stöðu að þurfa að tilkynna einhverjum að hann hafi misst ástvin, þá tekur þetta á. Sérstaklega þegar um börn er að ræða,“ segir Viðar Magnússon, læknir á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.

„Það ætti enginn að vera settur í þá stöðu að þurfa að tilkynna öðrum að þeir hafi misst börnin sín. Og það ætti enginn að vera settur í þá stöðu að þurfa að taka á móti svoleiðis upplýsingum.“

Viðar var einn þeirra sem tóku til máls í minningarathöfn sem fram fór í gærmorgun við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Þar var fórnarlamba umferðarslysa minnst með einnar mínútu þögn, eftir að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hafði ávarpað samkomuna og sagt frá tilefni dagsins. Sameinuðu þjóðirnar hafa frá árinu 1993 tileinkað þriðja sunnudag nóvembermánaðar minningu fórnarlamba umferðarslysa.

Auk þess að minnast fórnarlamba umferðarslysa var tilgangur athafnarinnar að heiðra þær starfsstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu þeirra sem lenda í alvarlegum umferðarslysum. Fulltrúar þeirra starfsstétta voru viðstaddir athöfnina; áhöfn þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar, lögregla, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitarmenn, slökkviliðsmenn, starfsmaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, læknar og hjúkrunarfólk.

Auk Viðars sögðu Leifur Halldórsson lögreglumaður og Oddur Eiríksson sjúkraflutningamaður reynslusögur sínar.

Um það bil 2 prósent allra dauðsfalla í heiminum eru af völdum umferðarslysa, en á hverju ári látast um 1,2 til 1,4 milljónir manna í umferðarslysum í heiminum. Banaslys í umferðinni eru algengasta dánarorsök ungs fólks í heiminum í dag. Af þeim tólf sem látist hafa í umferðinni hér á landi það sem af er þessu ári var helmingur 17 ára og yngri. Fjórir voru 17 ára, ein 13 ára stúlka og eitt 6 ára gamalt barn.

holmfridur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×