Íslenski boltinn

Guðmundur æfir mögulega með MLS-liðinu New England

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur Reynir fer til Bandaríkjanna um jólin.fréttablaðið/daníel
Guðmundur Reynir fer til Bandaríkjanna um jólin.fréttablaðið/daníel
„Það verður ekkert af því að ég fari í atvinnumennsku að þessu sinni. Þá er bara að skella sér til Harvard og mér finnst það alls ekkert verra,“ sagði Guðmundur Reynir Gunnarsson kátur, en hann fer í skiptinám í hinn heimsfræga Harvard-háskóla eftir áramótin.

Það eina sem hefði getað komið í veg fyrir þau plön var að hann fengi freistandi tilboð um að koma í atvinnumennsku.

Guðmundur var í viðræðum við félag í Skandinavíu en það félag varð að bregðast hratt við eftir að Harvard-málið kom upp. Það gerði félagið ekki.

Guðmundur mun því missa af síðari hluta undirbúningstímabilsins með KR og kemur heim á svipuðum tíma og Íslandsmótið hefst. Hann mun þó gera sitt besta til þess að halda sér í formi á meðan hann er úti.

„Við erum meðal annars að skoða hvort ég geti æft með MLS-liðinu í Boston,“ sagði Guðmundur, en það heitir New England Revolution og lenti í neðsta sæti Austurdeildar á síðustu leiktíð.

„Við finnum eitthvað gott út úr þessu og Teitur Þórðarson mun hugsanlega hjálpa okkur enda er hann vel tengdur í bandaríska boltann.“

Námshesturinn Guðmundur segist vera afar spenntur fyrir Bandaríkjaförinni og syrgir það ekki að hafa ekki komist í atvinnumennsku að þessu sinni.

„Ég er bara 22 ára og Harvard-tækifærið er frábært. Ef ég æfi síðan með Revolution er aldrei að vita nema ég komist að þar síðar,“ sagði bakvörðurinn, tónlistarmaðurinn og fyrrverandi landsliðsmaðurinn í stærðfræði léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×