Íslenski boltinn

Kjartan Henry: Sá að ég hef roð við þessum gæjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason.
Kjartan Henry Finnbogason. Mynd/Valli
Kjartan Henry Finnbogason kom heim til Íslands í fyrrakvöld eftir vikudvöl hjá enska B-deildarliðinu Brighton & Hove Albion þar sem hann þótti standa sig vel. Þar áður var hann hjá danska liðinu Nordsjælland en þangað fór hann strax eftir landsleik Íslands í Portúgal í upphafi síðasta mánaðar.

„Upphaflega átti ég bara að vera í þrjá daga hjá Brighton en þeim leist það vel á mig að það endaði í heilli viku,“ segir Kjartan sem hitti svo knattspyrnustjórann Gus Poyet að máli áður en hann kvaddi félagið og fékk jákvæð skilboð. „Hann sagði að þeir hefðu ekki séð neitt neikvætt við mig, að ég væri góður framherji og áhugaverður kostur. Þeir myndu svo bara vera í sambandi enda verður ekki opnað fyrir félagaskipti fyrr en í janúar.“

Brighton er nýliði í ensku B-deildinni og byrjaði af miklum krafti. En lítið hefur gengið að undanförnu og liðið ekki unnið í síðustu níu leikjum sínum. „Hann hefur því nóg á sinni könnu annað en mig. En á meðan þeir eru ekki að skora mörk þá tel ég að ég geti hjálpað þeim,“ segir Kjartan sem telur að það væri mjög spennandi kostur fyrir sig að spila í ensku B-deildinni.

„Þetta er ein af 6-7 sterkustu deildum Evrópu og það væri frábært að komast að í henni. Ég sá að ég hef roð við þessum gæjum. Ég hef alltaf sagt að ef mér myndi bjóðast einhver spennandi kostur þá myndi ég skoða það.“

Kjartan Henry segir hins vegar ólíklegt að hann muni enda hjá Nordsjælland í Danmörku en forráðamönnum þess liðs leist vel á hann.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá var ég ekkert rosalega hrifinn af þeim. Ég fór frekar til að kíkja á þá en öfugt og er niðurstaðan sú að mér finnst KR meira spennandi en Nordsjælland.“

Kjartan þekkir atvinnumennskuna vel enda leikið í Skotlandi, Noregi og Svíþjóð. „Ég mun ekki fara út bara til að fara út. Ég mun þó skoða þá möguleika sem bjóðast en nú þegar ég er kominn með fjölskyldu þarf að vera góður kostur fyrir okkur öll. Ég er einnig samningsbundinn KR og því þarf ýmislegt að smella saman.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×