Íslenski boltinn

Fæ fleiri færi með FH-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Brynjar Ingason
Albert Brynjar Ingason Mynd/Stefán
Albert Brynjar Ingason ákvað í gærkvöldi að yfirgefa Fylki og gera tveggja ára samning við FH.

„Það er mjög erfitt að fara frá Fylki og þeir voru alltaf inni í myndinni hjá mér. Ég hringdi fyrst í Fylki og þakkaði þeim fyrir allt. Mér leist líka rosalega vel á Ása þannig að þetta var ekki létt ákvörðun,“ sagði Albert.

„Ég er tilbúinn í samkeppnina hjá FH. Þú getur ekki sleppt því að fara í toppklúbb af því að það eru aðrir góðir leikmenn þar því þá vinnur maður aldrei neina bikara. Ég vildi líka sjá hversu langt ég gæti náð með svona liði sem spilar sóknarbolta eins og FH. Ég mun örugglega fá fleiri færi hjá FH,“ segir Albert.

„Ég held að ég muni njóta mín mjög vel hjá FH. Ég hef horft á FH spila og þá hef ég ímyndað mér að það gæti verið ljúft að spila frammi hjá þeim,“ segir Albert, sem fann sig vel á móti FH í sumar og skoraði í öllum þremur leikjunum gegn liðinu.

„Það er hundrað prósenta árangur á móti þeim í sumar og ég vona að það verði líka á næsta ári því þá gæti ég átt ansi gott sumar,“ sagði Albert léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×