Enski boltinn

Gerrard byrjar á móti United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kenny Dalglish teflir fyrirliðanum fram í dag
Kenny Dalglish teflir fyrirliðanum fram í dag Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool mun tjalda öllu sem til er þegar liðið fær Englandsmeistara Manchester United í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í sannkölluðum risaleik á Anfield í hádeginu.

Meiðslalistinn er tæmdur hjá mönnum Kenny Dalglish og fyrirliðinn Steven Gerrard mun byrja sinn fyrsta leik síðan 6. mars, en hann hefur verið lengi að koma til baka eftir nárameiðsli.

United er búið að tapa þremur síðustu leikjum sínum á Anfield og hefur ekki unnið erkifjendur sína í Bítlaborginni síðan í desember 2007. Dalglish hefur enn fremur aldrei tapað fyrir Sir Alex Ferguson á Anfield í fimm leikjum þar, en þar á meðal er 3-1 sigur Liverpool í vor.

United-maðurinn Wayne Rooney verður í sviðsljósinu en þessi fyrrverandi Everton-maður og markahæsti leikmaður deildarinnar hefur ekki skorað á Anfield í síðustu sex leikjum. Eina mark Rooneys í 9 deildarleikjum á Anfield kom í janúar 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×