Enski boltinn

Óljóst hvort að Ancelotti verði áfram með Chelsea

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Er Ancelotti á förum?
Er Ancelotti á förum? Nordic Photos/Getty Images
Chelsea hefur neitað að staðfesta hvort Carlo Ancelotti verði stjóri liðsins á næstu leiktíð. Ancelotti er samningsbundinn félaginu út næstu leiktíð en gengi liðsins á þessari leiktíð hefur verið langt undir væntingum og eru líkur á því að þessi ítalski knattspyrnustjóri hætti með liðið í sumar.

„Það eina sem ég get sagt er að Carlo er með samning við félagið til 2012. Við erum himinlifandi með Carlo og það sem hann hefur afrekað með liðinu," sagði Ron Gourlay framkvæmdastjóri Chelsea.

Ancelotti vann ensku deildina og enska bikarinn með Chelsea á síðustu leiktíð en er dottið út úr bikarnum og á lítinn möguleika á að verða Englandsmeistari. Liðið er þó komið í 8-liða úrslit í Meistaradeildinni.

„Væntingarnar eru háar en þær eru það einnig hjá mörgum klúbbum í Evrópu. Við verðum að vera raunsæir og við sjáum til í lok maí," bætti Gourlay við en sögusagnir eru um að Ancelotti muni taka við Roma á Ítalíu hætti hann sem stjóri Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×