Enski boltinn

Ferguson í fimm leikja bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur verið úrskurðaður í fimm leikja bann fyrir ummælin sem hann lét falla um Martin Atkinson knattspyrnudómara.

Hann þarf einnig að greiða 30 þúsund pund í sekt. Aganefnd enska knattspyrnusambandsins komst reyndar að þeirri niðurstöðu að dæma Ferguson í þriggja leikja bann en þar sem hann var á skilorði fyrir fyrri dóm bættust tveir leikir við.

Ummælin lét hann falla eftir leik United gegn Chelsea sem síðarnefnda liðið vann, 2-1. Ferguson sagði að hann hefði óttast hið versta þegar hann sá hvaða dómari hafi verið settur á leikinn.

„Maður vill fá dómara sem er sanngjarn eða að minnsta kosti góður. En slíkan dómara fengum við ekki,“ sagði Ferguson á sínum tíma.

Ferguson var ósáttur við að David Luiz hafi ekki fengið að líta rauða spjaldið í leiknum sem og að Chelsea hafi fengið vítaspyrnu þegar að Chris Smalling var dæmdur brotlegur eftir viðskipti sín við Yuri Zhirkov.

Bannið tekur gildi þann 22. mars næstkomandi og mun því Ferguson stýra sínum mönnum þegar að united mætir Bolton á heimavelli um helgina.

Hann mun hins vegar missa af fjórum leikjum í ensku úrvalsdeildinni, þar af mikilvægum leik gegn Arsenal í næsta mánuði, sem og leiknum gegn Manchester City í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.

United er nú á toppi deildarinnar með 60 stig, þremur meira en Arsenal sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×