Enski boltinn

Ellefta jafntefli QPR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Heiðar Helguson og félagar í QPR eru enn með fimm stiga forystu á toppi ensku B-deildarinnar eftir markalaust jafntefli gegn Hull á útivelli í dag.

Heiðar var ekki í leikmannahópi QPR að þessu sinni en hann er frá vegna meiðsla.

Aðeins tveir leikir fóru fram í deildinni í dag en í hinum gerðu Norwich og Crystal Palace einnig markalaust jafntefli.

Norwich er í öðru sæti deildarinnar og hefði getað minnkað forystu QPR í þrjú stig með sigri í dag.

Það er þó stutt í næstu lið og nokkur sem eiga ýmist einn eða tvo leiki til góða á toppliðið.

QPR hefur verið að misstíga sig að undanförnu eftir frábæra byrjun á tímabilinu. Allir þrír tapleikir tímabilsins hafa komið í síðustu níu leikjum liðsins en það hefur einnig gert þrjú jafntefli í síðustu fjórum leikjum sínum.

Önnur lið í toppbaráttunni, til að mynda Cardiff og Swansea, hafa líka verið að tapa leikjum og er því útlit fyrir spennandi baráttu á toppi deildarinnar á næstu vikum og mánuðum.

Í ensku C-deildinni tapaði Plymouth fyrir Bournemouth á heimavelli, 2-1. Kári Árnason lék allan leikinn fyrir Plymouth sem hefur tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum og er í fimmtánda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×