Íslenski boltinn

Umfjöllun: ÍA aftur í deild þeirra bestu

Stefán Árni Pálsson á ÍR-velli skrifar
Hjörtur Júlíus Hjartarson, leikmaður ÍA, skoraði í kvöld.
Hjörtur Júlíus Hjartarson, leikmaður ÍA, skoraði í kvöld. Mynd/Valli
ÍA komst í kvöld aftur í efstu deild karla eftir að hafa gert 1-1 jafntefli við ÍR í 1. deildinni í kvöld. Stigið dugði Skagamönnum til að komast upp í Pepsi-deildina.

Heimamenn voru ferskir í byrjun leiksins og ætluðu greinilega að selja sig dýrt gegn toppliðinu. Eftir tæplega hálftíma leik komust ÍR-ingar yfir í leiknum þegar Árni Freyr Guðnason skoraði laglegt mark beint úr aukaspyrnu, sérstaklega vel gert hjá framherjanum.

Skagamenn fóru heldur betur í gang eftir markið og sóttu án afláts. Á 38. mínútu fengu gestirnir vítaspyrnu þegar Tómas Agnarsson braut á Fannari Frey Gíslasyni innan teigs og réttilega dæmd vítaspyrna.

Íþróttafréttamaðurinn, Hjörtur Júlíus Hjartarson, steig á punktinn en lét Róbert Örn Óskarsson í marki ÍR verja frá sér. Skagamenn héldu áfram að sækja stíft að marki ÍR-inga en náðu ekki að skora fyrir leikhléið. Staðan því 1-0 í hálfleik.

Það var aðeins eitt lið á vellinum í síðari hálfleik og Hjörtur Júlíus náði að bæta fyrir mistökin í byrjun hálfleiksins þegar hann potaði boltanum í netið eftir hornspyrnu. Skagamenn hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk í leiknum en þeir Hjörtur og Stefán Þórðarson fengu urmul af færum sem þeir náðu ekki að nýta.

Skagamenn eru því komnir í efstu deild og eiga það svo sannarlega skilið. Liðið lék þar síðast árið 2008, en félagið er eitt sigursælasta lið frá upphafi í efstu deild. Það verður gaman að fara á Skagann á næsta tímabili og sjá leik í efstu deild. Til hamingju Skagamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×