Enski boltinn

Liverpool vann sinn þriðja deildarsigur í röð - Suarez skoraði í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liverpool fagna marki Raúl Meireles.
Leikmenn Liverpool fagna marki Raúl Meireles. Mynd/Nordic Photos/Getty

Liverpool er að komast á skrið undir stjórn Kenny Dalglish og liðið nálgast efstu liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir þriðja deildarisigurinn í röð í kvöld.

Úrúgvæinn Luis Suarez skoraði í sínum fyrsta leik fyrir félagið í 2-0 sigri á Stoke en það gerðu líka Robbie Keane í fyrsta leik sínum fyrir West Ham og Daniel Sturridge í sínum fyrsta leik með Bolton. West Ham vann 3-1 útisigur á Blackpool en Bolton vann 1-0 heimasigur á Wolves. Peter Crouch tryggði Tottenham 1-0 útisigur á Blackburn og Damien Duff skoraði sigurmark Fulham á móti Newcastle þar sem Eiður Smári var ekki í hópnum.

Liverpool fylgdi á eftir sigrum á Wolves og Fulham með 2-0 sigri á Stoke í fyrsta leik félagsins án Fernando Torres á Anfield í kvöld en Liverpool-liðið hefur unnið undanfarna þrjá leiki með markatölunni 6-0.

Liverpool bauð upp á leikaðferðina 3-5-2 á móti Stoke þar sem liðið lék með þrjá miðverði og bakverðirnir Glen Johnson og Martin Kelly voru á köntunum. Asmir Begovic var í stuði í marki Stoke og ekkert gekk að skora hjá Liverpool í fyrri hálfleiknum.

Það tók hinsvegar Liverpool aðeins 90 sekúndur að skora í seinni hálfleik þegar Raúl Meireles skoraði með góðu skoti eftir sendingu Sotiris Kyrgiakos og aukaspynu Steven Gerrard. Portúgalinn var þarna að skora sitt þriðja mark í síðutu fjórum leikjum.

Luis Suarez kom inn á sem varamaður á 63. mínútu og lék sinn fyrsta leik fyrir félagið en Andy Carroll er meiddur og sat upp í stúki. Suarez stimplaði sig inn með því að koma Liverpool í 2-0 á 79. mínútu eftir að hafa sloppið í gegn eftir frábæra stungusendingu frá Dirk Kuyt. Andy Wilkinson reyndi að bjarga á marklínunni og gæti fengið markið skráð á sig sem sjálfsmark.

Tottenham komst aftur á sigurbraut eftir að hafa fengið aðeins tvö stig í þremur leikjum á undan. Tottenham vann 1-0 útisigur á Blackburn og er áfram þremur stigum á eftir Chelsea.Peter Crouch skoraði sigurmark Tottenham strax á 4. mínútu með skalla á fjærstönginni eftir fyrirgjöf frá Rafael van der Vaart.

Mynd/Nordic Photos/Getty
Victor Obinna skoraði þrennu í bikarsigri á Nottingham Forest um helgina og hann skoraði tvö mörk í 3-1 sigri West Ham á Blacpool á Bloomfield Road.

Victor Obinna kom West Ham í 1-0 eftir 24 mínútur og tólf mínútum síðar var Robbie Keane búinn að opna markareikning sinn hjá West Ham í sínum fyrsta leik með félaginu. Keane fylgdi þá eftir skoti Obinna.

Charlie Adam minnkaði muninn fyrir Blackpool með því að skora hjá Robert Green beint úr hornspyrnu á 42. mínútu en aðeins mínútu síðar var Victor Obinna búinn að skora sitt annað mark og koma West Ham í 3-1. Obinna fékk boltann frá Scott Parker og skoraði með frábæru skoti af 30 metra færi.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum. West Ham vann sinn fyrsta sigur í fjórum leikjum en Blackpool tapaði aftur á móti sínum fjórða leik í röð.

Eiður Smári Guðjohnsen var ekki í hópnum hjá Fulham sem vann 1-0 sigur á Newcastle. Damien Duff skoraði sigurmarkið á 67. mínútu gegn sínum gömlu félögum eftir að hafa fengið langa sendingu inn fyrir vörnina frá Danny Murphy.

Grétar Rafn Steinsson var ekki í hópnum hjá Bolton sem vann 1-0 heimasigur á Wolves en það var Daniel Sturridge sem skoraði sigurmarkið í uppbótartíma í sínum fyrsta leik með Bolton eftir að hann kom frá Chelsea.

Úrslit og markaskorar í ensku úrvalsdeildinni í kvöld:
Mynd/Nordic Photos/Getty
Birmingham-Manchester City 2-2

0-1 Carlos Tévez (4.), 1-1 Nikola Zigic (23.), 1-2 Aleksandar Kolarov (41.), 2-2 Craig Gardner, víti (77.)

Blackburn-Tottenham 0-1

0-1 Peter Crouch (4.)

Blackpool-West Ham 1-3

0-1 Victor Obinna (24.), 0-2 Robbie Keane (36.), 1-2 Charlie Adam (42.), 1-3 Victor Obinna (43.)

Bolton-Wolves 1-0

1-0 Daniel Sturridge (90.+2)



Fulham-Newcastle 1-0


1-0 Damien Duff (67.)

Liverpool-Stoke 2-0

1-0 Raúl Meireles (47.), 2-0 Luis Suárez (79.)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×