Enski boltinn

Steve Clarke ekki hrifinn af landsleikjafríinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Clarke, lengst til vinstri, með Kenny Dalglish á æfingu Liverpool-liðsins.
Clarke, lengst til vinstri, með Kenny Dalglish á æfingu Liverpool-liðsins. Nordic Photos / Getty Images
Steve Clarke, aðstoðarstjóri Kenny Dalglish hjá Liverpool, er ekki hrifinn af landsleikjafríinu og telur að það muni hafa slæm áhrif á undirbúning liðsins fyrir stórleikinn gegn Manchester United um næstu helgi.

Liverpool er sem stendur í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar en United er á toppnum. Viðureign liðanna á Anfield ár hvert er alltaf beðið með mikilli eftirvæntingu og er það engin undantekning í ár.

Clarke segir að þeir leikmenn sem eru með sínum landsliðum nú komi þreyttir til baka, sérstaklega menn eins og Luis Suarez og Lucas Leiva sem eru nú staddir í Suður-Ameríku.

„Við fáum ekki alla leikmenn saman á æfingu fyrr en daginn fyrir leikinn,“ sagði Clarke í viðtali á heimasíðu Liverpool. „Það eru vissulega vonbrigði en við verðum bara að takast á við það.“

„Þeir sem urðu eftir verða að halda áfram að æfa og sinna því sem þarf að gera. Það er nóg að gera á æfingunum og ef okkur tekst að undirbúa þá betur fyrir leikinn gegn United er það af hinu góða.“

„En það eru bara 5-6 leikmenn sem eru með okkur á æfingasvæðinu þessa dagana. Aðrir eru með sínum landsliðum og þeir sem eru í Suður-Ameríku koma ekki til baka fyrr en seinni partinn á fimmtudaginn. Flestir aðrir koma á miðvikudaginn.“

„Vonandi tekst okkur að undirbúa liðið á föstudaginn en þetta eru vissulega erfiðar aðstæður. Það eina sem maður vonar er að leikmennirnir komi heilir heilsu til baka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×