Enski boltinn

Mata ánægður með Torres

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mata fagnar marki sínu í gær.
Mata fagnar marki sínu í gær. Nordic Photos / AFP
Juan Mata spáir því að Fernando Torres verði aftur upp á sitt allra besta í náinni framtíð. Þeir eru liðsfélagar bæði hjá Chelsea og spænska landsliðinu.

Torres hefur ekki náð sér á strik undanfarið ár, hvorki með Liverpool né Chelsea en hann var seldur til síðarnefnda félagsins í janúar síðastliðnum. Hann hefur þó verið a spila betur með Chelsea í síðustu leikjum og telur Mata að það sé stutt í að hann nái að sína sínar bestu hliðar á ný.

Spænska landsliðið vann í gær 2-0 sigur á Tékkum en Torres náði ekki að skora í leiknum þrátt fyrir að hafa spilað ágætlega. Torres hefur ekki náð að skora með spænska landsliðinu í rúmt ár.

„Fernando Torres hefur verið að spila mjög vel en hefur ekki náð að skora,“ sagði Mata eftir landsleikinn í gær. „Við erum allir mjög ánægðir með hann og teljum að það sé stutt í að hann nái sínu besta fram á nýjan leik.“

Mata skoraði fyrra mark Spánverja í gær en Xabi Alonso hitt. Spánverjar tryggðu sér sæti í úrslitakeppni EM í síðasta mánuði en og eru enn með 100 prósent árangur í riðlinum. „Við erum ánægðir með okkar spilamennsku og ég er mjög ánægður með að hafa skorað. Það er mér mikið ánægjuefni að fá að spila með þessu hæfileikaríka liði.“

Spánverjar mæta Skotum í lokaumferð riðlakeppninnar á þriðjudagskvöldið næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×