Neil Warnock, knattspyrnustjóri QPR, kom Adel Taraabt til varnar í gær en sá síðarnefndur var sagður hafa yfirgefið Craven Cottage áður en leik liðsins gegn Fulham lauk um helgina.
Taarabt var tekinn af velli í hálfleik og fullyrtu enskir fjölmiðlar í gær að Taarabt hafi yfirgefið leikvanginn stuttu síðar og sést hlaupa undan reiðum stuðningsmönnum nálægt stoppustöð rétt við leikvanginn.
QPR tapaði leiknum 6-0 en staðan í hálfleik var 3-0. Warnock neitar þeim staðhæfingum að hann hafi rifist við Taarabt í hálfleik og gerði hann lítið úr málinu.
„Búningsklefinn á Craven Cottage eru langt frá varamannaskýlunum og ég ætlaðist ekki til þess að hann myndi ganga þessa löngu leið bara til þess að horfa á okkur tapa leiknum,“ sagði Warnock við enska fjölmiðla.
„Fólk hefur talað um að hann hafi stormað í burtu. Ég vissi ekki einu sinni að hann hefði farið eitthvað. En allar staðhæfingar um að hann hafi farið inn á krá í nágrenninu og fengið sér bjór eru alrangar. Hann er múslimatrúar og drekkur því ekki.“
