Enski boltinn

Ferguson staðfestir komu De Gea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David de Gea í leik með Atletico Madrid.
David de Gea í leik með Atletico Madrid. Nordic Photos / AFP
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur staðfest að markvörðurinn David de Gea muni ganga til liðs við félagið í sumar.

United hefur lengi leitað af eftirmanni Edwin van der Sar sem mun leggja hanskana á hilluna eftir tímabilið. Hann mun væntanlega leika sinn síðasta leik þegar að United mætir Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á laugardaginn.

De Gea hefur lengi verið orðaður við United og þykir einn efnilegasti markvörður Evrópu um þessar mundir. Hann er er 20 ára gamall og samkvæmt enskum fjölmiðlum mun United greiða 21 milljón evra fyrir kappann.

„Við höfum verið að vinna í þessu máli í nokkurn tíma en við ákváðum fyrir nokkru síðan að hann væri maðurinn sem við vildum fá,“ sagði Ferguson við enska fjölmiðla í kvöld.

„Hann er ungur markvörður, mjög fljótur og góða sjálfstjórn. Hann er fyrirtaks eftirmaður fyrir van der Sar.“

De Gea hefur verið aðalmarkvörður spænska liðsins Atletico Madrid undanfarin tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×