Enski boltinn

Ótrúlegur endir í ensku E-deildinni - fjögur mörk í uppbótartíma

Óskar Ófeigur Jónsson. skrifar
Mynd/Heimasíða Alfreton Town
Þeir áhorfendur sem fóru aðeins of snemma af leik Alfreton Town og Hayes & Yeading í ensku E-deildinni á laugardaginn misstu heldur betur af miklu. Alfreton Town vann leikinn 3-2 eftir dramatískar lokamínútur.

Alfreton Town var 1-0 yfir þegar venjulegum leiktíma var lokið en liðið var búið að vera manni færri hálfan seinni hálfleikinn. Peter Banks, dómari leiksins, bætti við sjö mínútum og þær voru heldur betur viðburðarríkar.

Hayes & Yeading jafnaði metin í 1-1 þegar 1:48 var liðin af uppbótartímanum en Alfreton Town komst strax aftur yfir. Hayes & Yeading jafnaði aftur leikinn þegar 4:26 voru liðnar en Nathan Jarman skallaði síðan boltann í markið og tryggði Alfreton 3-2 sigur þegar 95:53 stóð á klukkunni.

Alfreton Town liðið þurfti heldur betur á stigunum að halda því liðið er í næstneðsta sæti í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×