Enski boltinn

Torres, Drogba og Anelka gætu allir byrjað inná gegn Liverpool

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Stuðningsmenn Chelsea eru spenntir fyrir komu Torres til liðsins.
Stuðningsmenn Chelsea eru spenntir fyrir komu Torres til liðsins. Nordic Photos/Getty Images

Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Chelsea getur eflaust ekki beðið eftir því að mæta Liverpool á sunnudaginn í ensku úrvalsdeildinni þar sem að Fernando Torres mun væntanlega leika sinn fyrsta leik fyrir félagið - gegn sínu gamla liði. Ekkert heiðursmannasamkomulag er í gildi á milli félagana þessa efnis að Torres leiki ekki gegn sínu gamla liði.

Ancelotti segir að það verði ekkert vandamál að nota alla þrjá framherja liðsins á sama tíma. Ancelotti gæti því stillt upp byrjunarliði þar sem að Fernando Torres, Didier Drogba og Nicolas Anelka yrðu saman í framlínunni.

Eftir 4-2 sigur Chelsea gegn Sunderland í gær sagði Ancelotti að hann gæti breytt um leikaðferð til þess að geta notað „ofurþríeykið" Torres, Drogba og Anelka. „Ég mun líklega vera með tvo framherja," sagði Ancelotti og gaf það í skyn að Anelka yrði í „frjálsu" hlutverki fyrir aftan þá Drogba og Torres sem fremsti miðjumaður.

Torres fór ekki með Chelsea til Sunderland í gær en hann æfði einn á æfingasvæðinu og ætlar sér að vera tilbúinn í slaginn gegn Liverpool á sunnudaginn.

Þetta er örlögin. Þetta er ekki fullkomin byrjun en við verðum að sjá til hvernig þetta spilast," sagði Torres. „Ég get bara sagt góða hluti um Liverpool. Þeir gerðu mig að toppleikmanni og veittu mér tækifæri til að spila á hæsta stigi. Ég mun aldrei segja neitt slæmt um Liverpool því ég hef verið mjög ánægður þar. Nú er þetta breytt og ég spila hér eftir fyrir Chelsea," sagði Torres.

„Ef ég fæ tækifæri til að spila þá mun ég gera mitt besta fyrir Chelsea og vonandi tekst mér að skora," sagði Fernando Torres sem skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri Liverpool á Chelsea fyrr á þessari leiktíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×