Fótbolti

Rangers meistari í Skotlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn og stuðningsmenn Rangers fagna í dag.
Leikmenn og stuðningsmenn Rangers fagna í dag. Nordic Photos / Getty Images
Glasgow Rangers varð í dag Skotlandsmeistari eftir 5-1 sigur á Kilmarnock á útivelli í lokaumferðinni. Þetta er þriðji meistaratitill félagsins í röð.

Þetta er mikill sigur fyrir knattspyrnustjórann Walter Smith sem var búinn að gefa það út fyrir tímabilið að þetta yrði hans síðasta í stjórasætinu hjá Rangers.

Rangers byrjaði leikinn í dag af miklum krafti og var komið í 3-0 eftir aðeins átta mínútur. Liðið skoraði svo tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks áður en Kilmarnock náði að klóra í bakkann. Kyle Lafferty skoraði þrennu fyrir Rangers og þeir Steven Naismith og Nikica Jelavic eitt hvor.

Rangers endaði með 93 stig, einu meira en erkfjendurnir í Celtic sem töpuðu titlinum þegar að liðið tapaði óvænt fyrir Inverness í upphafi mánaðarins. Celtic vann 4-0 sigur á Motherwell í dag en það dugði ekki til.

Hearts varð í þriðja sæti deildarinnar, heilum 30 stigum á eftir Rangers, þrátt fyrir að liðið tapaði í dag fyrir Dundee United á útivelli, 2-1. Eggert Gunnþór Jónsson lék allan leikinn í liði Hearts.

Hibernian, lið Guðlaugs Victors Pálssonar, endaði í tíunda sæti deildarinnar en Hamilton féll úr deildinni. Dunfirmline fagnaði sigri í skosku B-deildinni og keppir því í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×