Enski boltinn

Enska sambandið búið að kæra Ryan Babel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Babel í leiknum á móti Manchester United.
Ryan Babel í leiknum á móti Manchester United. Mynd/AFP
Ryan Babel, leikmaður Liverpool, varð í kvöld fyrsti leikmaðurinn í sögunni til þess að fara fyrir aganefnd enska knattspyrnusambandsins fyrir skrif inn á Twitter-síðu. Babel hefur frest til fimmtudags til að svara kærunni.

Það eru reyndar ekki skrif Hollendingsins sem fóru mest fyrir brjóstið á mönnum heldur mynd af dómaranum Howard Webb í Manchester United búningi.

Babel var mjög ósáttur við dómgæslu Howard Webb í bikarleiknum á móti Manchester United í gær en Webb dæmdi víti á Liverpool á fyrstu mínutu leiksins og rak síðan fyrirliðanna Steven Gerrard af velli eftir hálftíma leik. Babel setti myndina inn skömmu eftir leikinn.

„Og þeir segja að hann sé einn besta dómarann. Það er brandari," skrifaði Babel.

Babel fjarlægði síðan færsluna og bað Webb afsökunar. „Ég biðst afsökunar ef einhver tók myndina alvarlega. Þetta voru bara viðbrögð mín eftir slæman tapleik," skrifaði Babel en slapp engu að síður ekki við kæruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×