Enski boltinn

Eigandi West Ham efast um heilindi leikmanna sinna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
David Sullivan.
David Sullivan.
David Sullivan, annar eigandi West Ham, hefur miklar áhyggjur af sínu liði sem er í harðri botnbaráttu. Sullivan efast um baráttuanda sinna leikmanna og segir aðeins fjórðungslíkur vera á því að West Ham hangi upp í.

Eftir að hafa naumlega sloppið við fall í fyrra höfðu Sullivan og félagar væntingar um ágætt gengi í vetur. Það hefur ekki gengið eftir.

"Ég gæti komið í klefann og flutt ræðu í anda Churchill. Ég er ekki viss um að það breyti einhverju. Sumir leikmenn eru ofdekraðir og ekki bara okkar leikmenn. Hvernig á að hvetja milljónamæringa til dáða? Það er vandamál sem allir stjórar glíma við," sagði Sullivan.

"Leikmenn hræðast Alex Ferguson og stjórar virðast þurfa að vera ógnvekjandi til þess að ná til leikmanna. Sjáið bara Alex, Wenger og Mourinho. Leikmennirnir hræðast þá örlítið.

"Sumir minna leikmanna eru örugglega farnir að spá í hvar þeir verða næsta vetur. Einhverjir þeirra eru að klára sinn samning og það verður ekki auðvelt fyrir stjórann að velja í liðið," sagði Sullivan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×