Enski boltinn

Dalglish: Engin þörf fyrir Carroll á EM U-21

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dalglish með Andy Carroll.
Dalglish með Andy Carroll. Nordic Photos / Getty Images
Stuart Pearce, þjálfari U-21 landsliðs Englands, vill að Andy Carroll hjá Liverpool taki þátt í EM í Danmörku í sumar. Stjóri Carroll hjá Liverpool, Kenny Dalglish, segir það óþarfi.

Pearce valdi Carroll í 40 manna leikmannahóp Englands fyrir keppnina en Ísland verður einnig meðal þátttökuþjóða á mótinu í Danmörku í sumar.

Englendingar vilja vinna mótið en það tókst þeim síðast árið 1984. Dalglish segir þó í samtali við enska fjölmiðla að það eigi ekki að það eigi ekki að vera megintilgangurinn með þátttökunni í móti sem þessu.

„Það er allt gott og blessað að vinna mót en meira máli skiptir að leikmenn öðlist reynslu. Carroll er þegar byrjaður að spila með A-landsliðinu,“ sagði Dalglish og sagði því enga þörf fyrir hann að spila á þessu móti.

„Mér dettur til hugar leikur unglingaliða Manchester United og Leeds í bikarkeppni yngri liða árið 1993. Leeds vann þann leik en tveimur árum síðar var aðeins einn leikmaður kominn upp í aðallið Leeds.“

„Manchester United var hins vegar komið með þá Ryan Giggs, Paul Scholes og Neville-bræðurna upp í aðalliðið á sama tíma. Það er því eðlilegt að maður spyrji sig hvort liðið hafi verið hinn raunverulegi sigurvegari.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×