Innlent

Móðir Matthíasar: „Mig dreymir hann á nóttunni“

Erla Hlynsdóttir skrifar
Matthías er enn týndur. Móðir hans útilokar ekki að hann hafi farið í sjálfskipaða útlegð að hætti ástralskra frumbyggja
Matthías er enn týndur. Móðir hans útilokar ekki að hann hafi farið í sjálfskipaða útlegð að hætti ástralskra frumbyggja
„Auðvitað hef ég áhyggjur af honum. Mig dreymir hann á nóttunni. Núna síðast fannst mér hann kominn í eitthvað hús með fullt af listafólki sem var að stúdera Ásmund Sveinsson myndhöggvara. Húsið hét Ásmundur. Matti hafði þá bara gleymt sér þar og gleymt að láta mig vita hvar hann var," segir Þórgunnur Jónsdóttir, móðir Matthíasar Þórarinssonar sem hefur verið týndur síðan fyrir jól.

Matthías er 21 árs gamall og hefur áður týnst, en þó í mun styttri tíma. Móðir hans er sannfærð um að hann er heill á húfi og bíður þess eins að heyra aftur frá honum.

Laxness í uppáhaldi

Hún segir hann afar áhugasaman um listir, vísindi og síðast en ekki síst bókmennir. Verk Halldórs Laxness, Kristnihald undir Jökli, er í sérstöku uppáhaldi hjá honum og er ein aðalpersóna bókarinnar, Jón Prímus. Jón var prestur sem fékk viðurnefni sitt því hann var sérlega duglegur að gera við prímusa. Hann þótti nokkuð sérstakur, var rólyndismaður og hæfileikaríkur. Jón Prímus hafði sérstakt dálæti á Snæfellsjökli.

„Mér datt í hug að hann hefði kannski farið þangað og hitt einhvern Jón Prímus," segir Þórgunnur, full aðdáunar á ævintýraþorsta sonar síns.

Þórgunnur Jónsdóttir, móðir Matthíasar
Ástralskt „walkabout"

Þórgunnur útilokar ekki heldur að hann hafi farið í svokallað „walkabout" að hætti ástralskra frumbyggja. Þar tiðkast það hjá ungum mönnum að búa í óbyggðum í allt að hálft ár þar sem þeir komast í nána snertingu við náttúruna og æðri anda. Eftir þetta teljast þeir fullnuma karlmenni.

Matthías, eða Matti eins og mamma hans kallar hann, hefur einnig mjög gaman af Stiklum Ómars Ragnarssonar. „Hann hefur gaman af svona sérvitringum eins og Gísla á Uppsölum. Matti er sérvitur og hefur hugrekki til að vera hann sjálfur," segir Þórgunnur. Matti tók ekki þátt í neyslukapphlaupinu, lifði afar sparlega á lífsins gæðum, afneitaði nútímatækni og saumaði eigin föt.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum fannst rússajeppi Matthíasar við Esjurætur skömmu eftir áramótin, brunninn. Eigur Matthíasar höfðu verið fjarlægðar úr bílnum áður en hann brann. Björgunvarsveitir voru kallaðar út eftir að bíllinn fannst og var leitað vandlega að Matthíasi, en án árangurs. Ekki er stefnt á viðlíka skipulega leit nema fram komi nýjar vísbendingar þar sem björgunarsveitir vita ekki hvar skal leita Matthíasar eins og málin standa nú.

Mynd úr eftirlitsmyndavél sem lögreglan telur að sé af Matthíasi

Hans leið til að finna sig

Þórgunnur segir að Matthías hafi alltaf verið fyrirmyndar drengur, hann neyti ekki tóbaks, áfengis eða annarra vímuefna. „Sumir unglingar rasa út og koma heim á skallanum, eða fara út og klessa bíl. Hann hefur aldrei gert neitt svoleiðis. Kannski er hans tími til að finna sig bara kominn og þetta er hans leið," segir hún.

Þórgunnur tekur fram að það sé mjög ólikt Matta að láta ekki vita af sér en engu að síður er hún sannfærð um að hann komi brátt heim aftur. „Ég vona bara að hann fari að láta mömmu sína vita af sér," segir hún. „Okkar samband var mjog opið og gott en hann hefur greinilega ekki verið að segja mér allt undir það síðasta," segir hún og vísar til þess að hann lét hana ekkert vita hvert hann ætlaði sér að fara þegar hann hvarf.

Frá annarri plánetu

Matthías er mikill einfari en móðir hans segist hafa hvatt hann til að vera virkari í félagslífinu, með litlum árangri.

Þegar hann var yngri virtist allt stefna í að hann yrði bifvélavirki. Þá dundaði Matthías sér við að gera upp bíla og selja þá. „Þetta var það eina sem hann gerði framan af. Ég vissi ekki að hann hefði fleiri áhugamál en svo fór hann að uppgötva nýja hæfileika. Hann á heima í listaháskóla. Hann hefur mikla myndlistarhæfileika og spilar viðstöðulaust á gítar. Það er ekki skrýtið að svona fjölhæfur strákur eigi erfitt með að ákvaða hvað hann ætlar að verða. Hann er lífskúnstner," segir hún.



Bíllinn sem fannst brunninn við Esjurætur
Um tíma bjóð Matthías í rússajeppanum við hús móður sinnar. „Alltaf þegar ég kom í heimsókn í rússajeppann var hann ýmist að teikna eða hlusta á vísindaþátt á BBC. Hann vildi rökræða allt milli himins og jarðar. Hann hugsar öðruvísi en við hin. Ég hugsa að hann sé bara frá annarri plánetu," segir Þórgunnur glettin.

Faðirinn látinn

Faðir Matthíasar lést fyrir sjö árum og tók fráfallið mikið á hann. Matthías á engin alsystkyni en hálfsystkyn í Hollandi.

Arfur Matthíasar eftir föður hans hefur nýst honum til framfærslu, enda lifir hann mjög sparlega. Vegna þessa hefur hann aldrei sótt um bætur af nokkrum toga, hvorki atvinnuleysisbætur né aðrar.

Lögreglan lýsir enn eftir Matthíasi þó engin formleg leit standi yfir.

Hann er um 180 sentimetrar á hæð, grannvaxinn og ljósskolhærður. Lögregla telur líklegt að hann haldi til á Suðurlandi en Matthías bjó lengi á Stokkseyri. Stutt er síðan hann flutti með móður sinni á Kjalarnes.

Lögreglan sendi í gær út myndir úr eftirlitsmyndavél sem taldar eru vera af Matthíasi. Móðir hans er þó ekki sammála lögreglu og segir myndirnar ekki vera af syni sínum.


Tengdar fréttir

Bifreið Matthíasar fannst brunnin

Bifreið Matthíasar Þórarinssonar, sem leitað hefur verið að undanfarna daga, fannst í gær í malarnámum nærri heimili hans.

Árangurslaus leit að Matthíasi

Eftirgrennslan eftir Matthíasi Þórarinssyni hefur enn engan árangur borið og fáar vísbendingar hafa borist um hvar hann gæti verið niðurkominn. „Við erum búnir að vera að púsla og fylla inn í púsluspilið, en raunverulega hefur það ekki borið neinn árangur. Við höfum fengið fáar vísbendingar um ferðir hans,“ segir Ágúst Svansson

Nokkrir tugir björgunarsveitarmanna leita að Matthíasi

Nokkrir tugir hjálparsveitarmanna gengu um svæði við Esjurætur í morgun í leit að ummerkjum um ferðir Matthíasar Þórarinssonar, en ekkert hefur sést til hans síðan sautjánda desmber síðastliðinn.

Matthías hefur ekki fundist

Ekkert hafði spurst til Matthíasar Þórarinssonar síðdegis í gær, en hans hefur verið saknað síðan fyrir áramót.

Enn lýst eftir Matthíasi - nýjar myndir af honum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir enn eftir Matthíasi Þórarinssyni, 21 árs, en ekkert hefur spurst til hans í alllangan tíma. Talið er líklegt að Matthías, sem er um 180 sm á hæð og ljósskolhærður, haldi til einhversstaðar á Suðurlandi en sjálfur bjó hann lengi á Stokkseyri.

Björgunarsveitir leita að Matthíasi

Lögregla og björgunarsveitir munu í fyrramálið gera út leitarhópa í von um að finna Matthías Þórarinsson sem hefur verið saknað í nokkurn tíma. Lögregla hefur lýst eftir Matthíasi en það hefur engan árangur borið. Leitarhundar verða með í för um helgina en ekki hefur áður verið lagt í skipulega leit að Matthíasi, aðallega því lögregla hefur ekki vitað hvar skyldi leita hans.

Lýst eftir Matthíasi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir Matthíasi Þórarinssyni. Ekkert hefur spurst til hans í nokkurn tíma. Matthías er um 180 sentimetrar á hæð ljósskolhærður. Talið er líklegt að hann haldi til einhversstaðar á Suðurlandi. Matthías hefur til umráða gamlan rússajeppa og hefur ferðast á honum um landið. Bíllinn hefur verið útbúinn sem húsbíll. Þeir sem hafa upplýsingar um ferðir Matthíasar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444 1000

Fjölmargar ábendingar borist

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir enn eftir Matthíasi Þórarinssyni, 21 árs, en ekkert hefur spurst til hans í nokkurn tíma. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hafa fjölmargar ábendingar borist vegna Matthíasar og bílsins sem hann ekur um á, en ekkert af þeim hefur skilað niðurstöðu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×