Innlent

Árangurslaus leit að Matthíasi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Enn er leitað að Matthíasi Þórarinssyni.
Enn er leitað að Matthíasi Þórarinssyni.
Eftirgrennslan eftir Matthíasi Þórarinssyni hefur enn engan árangur borið og fáar vísbendingar hafa borist um hvar hann gæti verið niðurkominn. „Við erum búnir að vera að púsla og fylla inn í púsluspilið, en raunverulega hefur það ekki borið neinn árangur. Við höfum fengið fáar vísbendingar um ferðir hans," segir Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni.

Eins og fram hefur komið fannst bifreið Matthíasar brunninn og grunur leikur á að hann hafi brunnið um mánaðamótin nóvember/desember. Þá hafi björgunarsveitir verið fengnar til að leita í kringum svæðið þar sem bifreiðin fannst. Síðan hafi fengist vísbendingar um að hann hafi verið í Bónus á Selfossi þann 17. desember síðastliðinn og jafnframt sést í Fjarðarkaupum. Þær vísbendingar hafi hins vegar ekki fengist staðfestar.

„Við erum áfram á byrjunarreit og getum ekki sent björgunarsveitir hingað og þangað. Við verðum að hafa einhvern útgangspunkt," segir Ágúst. Lögreglan vinni hins vegar áfram daglega að málinu. Ágúst segir engar vísbendingar um að nokkuð saknæmt tengist hvarfi Matthíasar.

Matthías er 21 árs gamall, um 180 sentimetrar á hæð, ljósskolhærður og talinn halda til á Suðurlandi. Þeir sem hafa upplýsingar um hvar hann gæti verið niðurkominn eru beðnir um að koma þeim skilaboðum áleiðis til lögreglunnar í síma 444-1000





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×