Enski boltinn

Leikmenn Liverpool sýndu stuðning sinn í verki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Liverpool í umræddum bolum í kvöld.
Leikmenn Liverpool í umræddum bolum í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Leikmenn Liverpool sendu frá sér yfirlýsingu og klæddust sérstökum bolum til stuðnings við Luis Suarez, sem var í gær dæmdur í átta leikja bann af enska knattspyrnusambandinu.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd klæddust leikmennirnir bolum með mynd af Suarez á meðan þeir hituðu upp fyrir leik liðsins gegn Wigan í kvöld.

Fyrir leikinn birtist svo yfirlýsing á heimasíðu félagsins þar sem leikmenn lýstu fullum stuðningi við Suarez.

„Við styðjum Luis heilshugar og viljum að allur heimurinn viti það," stóð í yfirlýsingunni sem má lesa hér. „Við vitum að hann er ekki kynþáttahatari."

Suarez var dæmdur fyrir að hafa verið með kynþáttaníð í garð Patrice Evra í leik Liverpool og Manchester United fyrr í haust. Hann hefur staðfastlega neitað sök en aganefnd enska knattspyrnusambandsins dæmdi hann engu að síður í átta leikja bann.

Suarez hefur tvær vikur til að áfrýja niðurstöðunni og getur þangað til spilað áfram með liðinu - eins og hann gerði í kvöld er Liverpool og Wigan gerðu markalaust jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×