Enski boltinn

Heiðar vill fá nýjan samning við QPR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar, til hægri, fagnar marki í leik með QPR.
Heiðar, til hægri, fagnar marki í leik með QPR. Nordic Photos / Getty Images
Heiðar Helguson segist í samtali við enska fjölmiðla vonast að fá nýjan samning við QPR nú í sumar.

Samningur Heiðars rennur út í lok leiktíðar en hann hefur staðið sig vel á leiktíðinni og skorað þrettán mörk. QPR tryggði sér á dögunum sigur í ensku B-deildinni og þar með sæti í ensku úrvalsdeildinni fyrir næstu leiktíð.

„Eins og málin standa núna er ég ekki með neinn samning í höndunum,“ sagði Heiðar. „Ég vona að ég muni skrifa undir nýjan samning en það er alltaf nóg af sögusögnum á kreiki hjá QPR, bæði um leikmenn og knattspyrnustjóra. Ég á því erfitt með að meta hvað muni gerast.“

„Það verður nóg að gera í sumar og leikmenn munu bæði koma og fara, eins og venjan er hjá öllum félögum.“

Heiðar er 33 ára gamall og hefur leikið með Watrford, Fulham og Bolton á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×