Enski boltinn

Dalglish ánægður með fjölbreytnina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, er ánægður með að liðið sé ekki lengur háð einum eða tveimur leikmönnum eins og hefur viljað loða við liðið undanfarin misseri.

Fyrirliðinn Steven Gerrard og sóknarmaðurinn Fernando Torres voru lengi vel algjörir lykilmenn í liði Liverpool en þrátt fyrir að Gerrard hafi verið meiddur og Torres seldur til Chelsea hefur Liverpool gengið vel að undanförnu.

„Þeim mun fleiri kostir sem liðinu standa til boða, þeim mun betra er það fyrir alla viðeigandi,“ sagði Dalglish við enska fjölmiðla. „Ég veit að þetta var ekki svona áður.“

„Það er eðlilegt að sumir leikmenn fái meiri athygli en aðrir. Þannig er það í öllum liðum.“

„En þau lið sem ná bestum árangri eru þau sem búa yfir flestum möguleikum til að sækja fram.“

„Í raun skiptir það ekki máli hvaðan við fáum okkar sterkasta vopn hverju sinni. Styrkleikinn ræðst af því úr hversu mörgum kostum maður hefur að velja.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×