Enski boltinn

Bale með sködduð liðbönd í ökkla - tímabilið búið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Tottenham hefur nú staðfest að Gareth Bale muni ekki spila meira á leiktíðinni en hann er með sködduð liðbönd í ökkla.

Bale meiddist þegar hann var tæklaður illa af Charlie Adam, leikmanni Blackpool, í leik liðann um helgina.

Bale var borinn af velli og nú er ljóst að hann missir af leiknum mikilvæga gegn Manchester City á morgun, sem og síðustu tveimur umferðunum í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham verður að vinna City á morgun til að eiga einhverja möguleika á því að ná fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og fá þar með þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu fyrir næsta tímabil.

Frá því var greint á heimasíðu Tottenham að Bale þurfi að ganga með hlífðarbúnað um ökklann næstu tólf dagana áður en endurhæfing tekur við. Hann ætti þó að vera búinn að jafna sig áður en undirbúningstímabilið hefst í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×