Enski boltinn

King gæti þurft að fara í aðgerð vegna nárameiðslanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
King á æfingunni með Beckham í gær.
King á æfingunni með Beckham í gær. Nordic Photos / Getty Images

Ledley King gæti þurft að fara í aðgerð vegna nárameiðsla en meiðsli hafa plagað þennan þrítuga varnarmann nánast allan hans feril.

King á við krónísk hnémeiðsli að stríða og getur vegna þeirra nánast ekkert æft á milli leikja. En meiðsli í nára hafa verið að plaga hann í haust og hefur King ekkert spilað með Tottenham síðan um miðjan október vegna þeirra.

King hefur verið að reyna að ná sér góðum að meiðslunum en varð fyrir bakslagi á æfingu í gær.

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, segir að það hafi verið góð stemning á æfingu liðsins í gær enda David Beckham byrjaður að æfa með liðinu og þá var Jonathan Woodgate einnig að æfa eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Það breyttist þó þegar King meiddist.

„Nárameiðslin hjá Ledley hafa tekið sig upp," sagði Redknapp við enska fjölmiðla. „Við þurfum nú að taka ákvörðun hvort hann þurfi að fara í aðgerð."

„Hann hafði spilað vel á æfingunni en meiddist svo með síðustu spyrnu sinni. Hann þarf nú að ráðfæra sig við lækna félagsins til að ákveða framhaldið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×