Enski boltinn

McClaren heldur öllum möguleikum opnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Steve McClaren er ekki af baki dottinn þrátt fyrir að hann hafi verið rekinn frá þýska úrvalsdeildarfélaginu Wolfsburg á dögunum.

McClaren hélt til meginlands Evrópu eftir að hann hætti með enska landsliðið á sínum tíma og gerði til að mynda FC Twente að hollenskum meisturum á síðasta tímabili.

Hann náði fínum árangri með Middlesbrough í ensku úrvalsdeildinni á sínum tíma en liðið leikur nú í ensku B-deildinni. McClaren mun ekki setja það fyrir sig að þjálfa lið í þeirri deild nú.

„Ég hef séð ummæli þjálfara sem segjast aðeins vilja starfa í ensku úrvalsdeildinni," sagði McClaren. „En það eru jafn mörg spennandi verkefni í ensku B-deildinni og í úrvalsdeildinni. Það eru mörg lið sem viljast komast upp um deild og það væri frábær árangur fyrir hvaða lið sem er."

„Gott dæmi er Blackpool. Það lið hefur náð frábærum árangri. Ég tel enn að enska úrvalsdeildin sé sú besta í heimi, þrátt fyrir reynslu mína af úrvalsdeildunum í Hollandi og Þýskalandi."

„Það eru þó líka mörg spennandi verkefni og áskoranir utan Englands."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×