Enski boltinn

David Moyes: Fabregas átti að fá rauða spjaldið í hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas mótmælir hér í leiknum í kvöld.
Cesc Fabregas mótmælir hér í leiknum í kvöld. Mynd/AP
David Moyes, stjóri Everton, var allt annað en sáttur eftir 1-2 tap liðsins á móti Arsenal á Emirates-leikvanginum í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

„Cesc Fabregas átti að fá rauða spjaldið fyrir það sem hann sagði við fjórða dómarann í hálfleik," sagði David Moyes en Fabregas og félagar í Arsenal-liðinu voru mjög ósáttir við mark Everton sem var greinilegt rangstöðumark.

„Hann er stór leikmaður fyrir þá og þetta breytti flæði leiksins. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hann sagði við fjórða dómarann því það er best að dómarnir sjálfir greini frá því," sagði Moyes.

„Þetta snýst samt alltaf um að ná úrslitum og við verðum að fara að ná úrslitum. Ég held að enginn hafi getað komið frá þessum leik og sagt það að Everton hafi ekki átt neitt skilið úr þessum leik," sagði Moyes en Everton er nú í fjórtánda sæti fjórum stigum frá fallsæti.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, sagði að Cesc Fabregas hafi ekki sagt orð við dómarann í hálfleik og sá eini sem hafði talað við dómarana hja´Arsenal var hann sjálfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×