Enski boltinn

Bendtner: Walcott-sagan má ekki endurtaka sig með Wilshere

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere og Theo Walcott á æfingu með enska landsliðinu á Parken.
Jack Wilshere og Theo Walcott á æfingu með enska landsliðinu á Parken. Mynd/Nordic Photos/Getty
Daninn Nicklas Bendtner hefur varað Englendinga við því að þeir verða að fara betur með Jack Wilshere en þeir gerðu með Theo Walcott á sínum tíma. Wilshere byrjar inn á í fyrsta sinn með enska landsliðinu á móti Dönum í kvöld.

„Ég hef mínar eigin kenningar um hvernig enska landsliðið meðhöndlaði Theo Walcott vitlaust en ég vil ekki fara mikið út í þær," sagði Nicklas Bendtner á blaðamannafundi í gær en hann mun spila með danska landsliðinu í leiknum.

„Theo Walcott-sagan getur engu að síður verið lexía um hvernig á ekki að fara með Jack. Það er mikilvægt að fara rólega og átta sig á því að hann ennþá bara strákur," sagði Bendtner.

„Hann er enn mjög ungur þótt að hann líti út fyrir að vera mjög þroskaður og spili eins og hann hafi verið lengi að. Jack er alltaf að þroskast meira og meira og hann mun bæta sig næstu fimm til sex árin," sagði Bendtner.

„Ungir leikmenn í Englandi eru alltaf settir undir mikla pressu og það snemma. Jack hefur samt góða möguleika á því að verða frábær leikmaður fyrir enska landsliðið," sagði Bendtner.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×