Enski boltinn

Micah Richards fer ekki með til Danmerkur vegna meiðsla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Micah Richards, leikmaður Manchester City, verður ekki með Englandi á EM U-21 liða í Danmörku í sumar þar sem hann á við meiðsli að stríða.

Richards meiddist einmitt í leik með U-21 liði Englands í æfingaleik gegn Danmörku í Kaupmannahöfn fyrir um tveimur mánuðum síðan.

Richards á að baki tólf leiki með A-landsliði Englands og stóð sig vel á nýliðnu tímabili í ensku úrvalsdeildinni.

„Okkur fannst það of mikil áhætta að taka hann með þar sem að meiðslin gætu tekið sig upp. Það væri ekki sanngjarnt gagnvart leikmanni sem er heill,“ sagði Stuart Pearce, landsliðsþjálfari Englands.

„Hann er stór og mikilvægur hluti af U-21 hópnum. Hann spilaði í úrslitaleiknum á EM 2009 og hans verður sárt saknað.“

„En núna snýst allt um að taka með 23 leikmenn sem eru allir í góðu formi og klárir í slaginn,“ bætti Pearce við.

Hvorki Andy Carroll og Jack Wilshere verða með Englendingum í Danmörku í sumar. Carroll er einnig meiddur og Wilshere gaf ekki kost á sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×