Enski boltinn

Stoke og Birmingham fóru auðveldlega áfram í bikarnum

Stefán Árni Pálsson skrifar
John Carew er að reynast Stoke vel. / Mynd: Getty Images
John Carew er að reynast Stoke vel. / Mynd: Getty Images
Stoke og Birmingham tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum enska bikarsins eftir sannfærandi sigra. Stoke vann auðveldan sigur gegn Brighton 3-0 og sömu sögu er að segja af Birmingham sem sigruðu Sheffield Wednesday 3-0.

Leikmenn Stoke hafa alltaf kunnað vel við að skalla boltann í netið og það var enginn undantekning á því í dag. Öll mörk leiksins voru skallamörk, en John Carew skoraði fyrsta mark leiksins. Jonathan Walters, leikmaður Stoke, var næstur á dagskrá en hann skallaði boltann í netið á 22. mínútu.

Loks var komið að Ryan Shawcross sem skoraði fínt mark eftir hornspyrnu frá Jermaine Pennant.

Birmingham var aldrei í vandræðum með Sheffield Wednesday en þeir leiddu leikinn með tveimur mörkum gegn engu í hálfleik. Leiknum lauk síðan með 3-0 sigri heimamanna í Bimingham.

Jean Beausejour skoraði fyrsta mark leiksins á 6. mínútu leiksins og gaf þar með tóninn. Obafemi Martins kom síðan Birmingham í 2-0 á 22. mínútu og það var síðan David Murphy sem innsiglaði sigurinn á 53. mínútu. Úrvalsdeildarliðin því í engum vandræðum með neðrideildarliðin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×