Enski boltinn

Dalglish útilokar ekki að fleiri leikmenn séu á leiðinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool.
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, gaf í skyn á blaðamannafundi í gær að fleiri leikmenn kynnu að vera á leiðinni til félagsins áður en félagaskiptaglugginn lokar um næstu mánaðamót.

Dalglish hefur eytt meira en 100 milljónum punda í nýja leikmenn síðan hann tók við í janúar síðastliðnum en liðinu hefur engu að síður gengið illa á undirbúningstímabilinu og fengið á sig mörg mörk.

Því er talið að Dalglish hafi áhuga á að kaupa varnarmann og hafa þeir Jose Enrique hjá Newcastle, Gary Cahill hjá Bolton og Scott Dann hjá Birmingham helst verið orðaðir við félagið.

„Auðvitað vonast allir til þess að nýju leikmennirnir komi inn í liðið af miklum krafti og láti mikið af sér kveða,“ sagði Dalglish. „En við teljum að við höfum styrkt liðið og að þeir leikmenn sem voru fyrir njóti einnig góðs af því.“

„Það er engin ávísun á árangur að eyða háaum upphæðum í nýja leikmenn. En ég veit heldur um ekkert félag sem hefur náð árangri án þess að eyða pening. Þetta er því nauðsynlegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×