Enski boltinn

Villas-Boas: Torres er með fínt sjálfstraust

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hinn nýi stjóri Chelsea, Andre Villas-Boas, vill sem minnst ræða um markaþurrð Fernando Torres hjá Chelsea og neitar því að leikmanninn vanti sjálfstraust. Torres skoraði aðeins eitt mark í átján leikjum með Chelsea á síðustu leiktíð eftir að hafa verið keyptur á 50 milljónir punda frá Liverpool.

Torres var slakur í naumum 1-0 sigri Chelsea gegn úrvalsliði Malasíu og Villas-Boas fékk spurningar um leikmanninn eftir vinnu.

"Ég vil ekki gera þetta mál með Torres að þráhyggju eins og þið hafið gert. Ég ætla ekki að eyða mínum tíma í það. Ég er algjörlega ósammála því að hann skorti sjálfstraust," sagði Villas-Boas.

"Í hvert skipti sem leikmaður skorar ekki er ég spurður út í hann. Torres er vissulega 50 milljón punda maður en ég einblíni á frammistöðu liðsins en ekki einstaklingsins. Það skiptir ekki máli hver skorar og hvað þá í æfingaleikjum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×