Enski boltinn

Gary Neville er hættur í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Neville í síðasta leiknum með United.
Gary Neville í síðasta leiknum með United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gary Neville, varnarmaður Manchester United, hefur spilað sinn síðasta fótboltaleik en þetta kemur fram á BBC. Neville er 35 ára gamall og lék sinn síðasta leik með Manchester United á móti West Brom á nýársdag.

„Ég hef verið stuðningsmaður Manchester United alla mína ævi og allir mínir draumar hafa ræst. Það eru samt vonbrigði að ég hafi spilað minn síðasta leik en það gerist víst hjá öllum fótboltamönnum," sagði Gary Neville.

„Þetta snýst um að þekkja sinn vitjunartíma og ég veit að það er komið að leiðarlokum hjá mér núna," sagði Neville.

Gary Neville lék 602 leiki fyrir Manchester United, varð átta sinnum Englandsmeistari, vann enska bikarinn þrisvar sinnum og Meistaradeild Evrópu einu sinni.

Neville var fastamaður í hægri bakvarðarstöðu liðsins í mörg ár og var fimm sinnum valinn í lið ársins í ensku úrvalsdeildinni 1997,1998, 1999, 2005 og 2007.

„Gary var besti hægri bakvörður sinnar kynslóðar," sagði Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×