Enski boltinn

Petr Cech bjargaði Chelsea og varði víti - Eiður Smári með fína takta

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar

Petr Cech var hetja Englandsmeistaraliðs Chelsea þegar hann varði víti á lokamínútunni gegn Fulham. Cech sá við bandaríska landsliðsmanninum Clint Dempsey sem tók vítið en ekkert mark var skorað í leiknum. Eiður Smári Guðjohnsen kom inná sem varamaður á 82. mínútu og hann var greinilega staðráðinn í því að sýna hvað í honum býr.

Chelsea er í fimmta sæti með 45 stig, Tottenham er þar fyrir ofan með 47, Manchester City í því þriðja með 49. Manchester United er efst með 57 og Arsenal er með 53 í öðru sæti. Fulham er í 12. sæti með 31 stig.

David Luiz, sem nýverið var keyptur til Chelsea fyrir 25 milljónir punda, braut á Dempsey þegar þrjár mínútur voru liðnar af uppbótartímanum.

Eiður Smári lét strax finna fyrir sér með hörkutæklingu sem minnti um margt á tilþrif knattspyrnustjórans Mark Hughes á árum áður. Florent Malouda fékk að kenna á því og var Eiður reyndar heppinn að fá ekki gult spjald fyrir þessi tiþrif.

Eiður sýndi svipaða takta örskömmu síðar og hann hefur eflaust vakið athygli knattspyrnustjórans Hughes á þessum stutta tíma sem hann fékk að spreyta sig.







David Luiz og Andrew Johnson.Nordic Photos/Getty Images
Eins og áður segir náði Dempsey ekki að skora úr vítaspyrnunni en Danny Murphy vítaskytta liðsins var farinn af leikvelli. Eiður var mættur í vítateiginn þegar boltinn barst út í teiginn eftir að Cech hafði varið.

Dempsey ákvað hinsvegar að sýna sparihliðarnar og reyndi að skjóta á markið úr bakfallsspyrnu - og sú tilraun var skelfileg. Eiður var í mun betra færi og hefði eflaust viljað fá boltann í þessu færi gegn sínu gamla liði.

Fernando Torres var í fremstu víglínu hjá Chelsea en hann náði sér ekki á strik og hann á enn eftir að skora fyrir Chelsea eftir að hann var keyptur fyrir rúma 9 milljarða kr. frá Liverpool. Torres fór af leikvelli á 62. mínútu og Didier Drogba kom inná sem varamaður.



Staðan í deildinni.

















Fleiri fréttir

Sjá meira


×