Enski boltinn

Sex mörk í jafntefli Wolves og Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Wolves horfa í átt til dómarans sem hefur dæmt mark af þeim.
Leikmenn Wolves horfa í átt til dómarans sem hefur dæmt mark af þeim. Mynd/AP
Wolves og Tottenham gerðu 3-3 jafntefli í frábærum fótboltaleik á Molineux í seinni leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Tottenham komst tvisvar yfir í leiknum en sá á eftir mikilvægum stigum í harðri baráttu um 4. sætið við Chelsea. Tottenham hafði heppnina með sér í tveimur umdeildum dómum og hefði því auðveldlega getað tapað þessum leik.

Kevin Doyle kom Wolves í 1-0 á 20. mínútu með skalla eftir sendingu Nenad Milijas en Jermain Defoe svaraði með tveimur nánast eins mörkum með fjögurra mínútna millibilil. Bæði mörk Defoe komu með glæsilegum skotum fyrir utan teig, það fyrra á 30. mínútu og það seinna á 34. mínútu.

Kevin Doyle jafnaði metin úr vítaspyrnu á 40. mínútu eftir að Alan Hutton hafði togað niður Nenad Milijas. Hutton var heppinn að sleppa með aðeins gult spjald.

Roman Pavlyuchenko kom Tottenham aftur yfir á 48. með glæsilegu marki eftir sendingu frá Jermaine Jenas og það virtist vera sem Tottenham ætlaði að landa mikilvægum sigri.

Úlfarnir sóttu hinsvegar í sig veðrið er leið á hálfleikinn og Richard Stearman virtist hafa jafnað leikinn á 80. mínútu. Mark Halsey dæmdi hinsvegar aukaspyrnu fyrir brot á Heurelho Gomes, markverði Tottenham, þótt að það liti út fyrir að Gomes hafi brotið meira á Stearman heldur en Stearman á honum.

Wolves gafst þó ekki upp við þetta mótlæti og Steven Fletcher jafnaði metin sjö mínútum síðar með skalla eftir sendingu frá Matthew Jarvis. Það reyndist vera sjötta og síðasta mark leiksins sem bauð upp á allt það besta við enska fótboltann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×