Enski boltinn

Berbatov: Rooney er sá besti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Dimitar Berbatov segir að Wayne Rooney hafi allt það sem framherji þurfi að bera og að hafi ekki spilað með betri sóknarmanni en honum.

Berbatov er markahæsti leikmaður United á tímabilinu með nítján mörk en var settur á bekkinn þegar að United vann 2-1 sigur á Manchester City í leik liðanna um helgina.

Það var Rooney sem skoraði sigurmark leiksins með glæsilegri bakfallsspyrnu.

Enskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að til stæði að bjóða Berbatov nýjan þriggja ára samning við United.

Sjálfur segist hann ánægður hjá félaginu, þó svo að hann þurfi stundum að víkja fyrir Rooney.

„Þegar maður veltir fyrir sér hvaða eiginleikum framherji þarf að búa yfir þá hefur Wayne þá alla og er sá besti," sagði Berbatov við enska fjölmiðla. „Hann er sá besti sem ég hef spilað með nokkru sinni."

„En mér hefur gengið vel á tímabilinu og það væri jafnvel enn betra ef okkur tækist að vinna titilinn."

„Ég hef alltaf haft háleit markmið og því ætla ég að reyna að skora 20 mörk til viðbótar áður en tímabilinu lýkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×