Enski boltinn

McLeish ætlar ekki að gefast upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex McLeish, stjóri Aston Villa.
Alex McLeish, stjóri Aston Villa. Nordic Photos / Getty Images
Alex McLeish, stjóri Aston Villa, skilur vel gremju áhorfenda í sinn garð en ætlar ekki að gefast upp þrátt fyrir mótlætið.

Aston Villa tapaði fyrir Manchester United, 1-0, um helgina og hefur aðeins unnið einn af sjö síðustu leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Liðinu hefur ekki tekist að skora í síðustu þremur leikjum sínum.

Stuðningsmenn liðsins púuðu á leikmenn sína þegar þeir gengu til búningsklefa eftir fyrri hálfleikinn. McLeish tók við Villa í sumar eftir að hafa stýrt erkifjendunum í Birmingham og hann hefur átt erfitt með að vinna stuðningsmenn á sitt band.

„Baulið kom mér ekki í uppnám,“ sagði McLeish við enska fjölmiðla. „Við spiluðum boltanum ekki vel í fyrri hálfleik og misstum hann oft. Ég held að okkur hafi skort sjálfstraust og trú.“

„Ég var því sammála stuðningsmönnunum í þessu tilviki. En við spiluðum betur í seinni hálfleik og strákarnir gerðu allt það sem ég ætlaðist til af þeim.“

„Ég ætla ekki að gagnrýna stuðningsmennina. Það vita allir hversu erfitt það var fyrir mig að koma hingað og verð ég bara að þrauka þetta áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×