Fótbolti

Íranska kvennalandsliðinu meinað að spila vegna keppnisbúnings

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íranir segja að lesa megi orðið ZION út úr merki leikanna
Íranir segja að lesa megi orðið ZION út úr merki leikanna Mynd/Nordic Photos/AFP
Möguleikar íranska kvennalandsliðsins í knattspyrnu að spila á ólympíuleikunum í London að ári virðast að litlu orðnir. Gengi liðsins í undankeppninni hefur verið með ágætum en það er keppnisbúningur landsliðsins sem alþjóða knattspyrnusambandið FIFA sættir sig ekki við.

Guardian fjallar um málið í dag og má sjá keppnisbúning landsliðsins með því að smella hér.

Íran átti að spila í undankeppninni gegn Jórdaníu í Amman í síðustu viku. Skömmu áður en leikurinn átti að hefjast var liðinu meinað að spila leikinn vegna keppnisbúningsins. Búningurinn hylur allan líkamann auk þess sem konurnar bera höfuðklút.

FIFA hefur áður gert athugasemdir við keppnisbúning landsliðsins og meinað því að keppa. Í reglum FIFA segir að keppnisbúningar landsliða verði að vera lausir við pólitískar og trúarlegar tengingar. Í kjölfarið gerðu Íranir breytingar á honum.

Knattspyrnuyfirvöld í Íran töldu sig hafa fengið samþykki FIFA og Sepp Blatter vegna nýja búningsins og spiluðu keppnisleik í kjölfarið. Að þeirra mati gaf því ekkert annað til kynna en keppnisbúningurinn stæðist reglugerð FIFA er snýr að ólympíuleiknum. Annað hefur komið á daginn.

FIFA segir bæði landslið hafa verið minnt á að uppfylla reglur FIFA um keppnisbúninginn fyrir leikinn í Amman. Af þeim sökum voru nokkrir leikmenn Jórdaníu ekki valdir í leikmannahópinn. Vissulega hefði FIFA samþykkt fyrri búning liðsins. Sá búningur huldi hins vegar ekki háls og andlit líkt og sá nýi gerir.

Íran var dæmt 3-0 tap í leiknum óspilaða í Jórdaníu og á fyrir vikið minni möguleika á að komast til Lundúna 2012.

Íranir komust í fréttirnar fyrr í vetur þegar þeir voru afar ósáttir við merki ólympíuleikanna í London. Sjá hlekk hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×