Íslenski boltinn

Guðjón og BÍ/Bolungarvík hafa samið um starfslok

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Daníel
BÍ/Bolungarvík sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem staðfest er að Guðjón Þórðarson hafi látið af störfum sem þjálfari liðsins.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu. Fótbolti.net fullyrti síðdegis í gær að Guðjón hafi verið rekinn frá félaginu en þegar Vísir leitaði staðfestingar hjá því frá forráðamönnum Djúpmanna var það sagt rangt.

Guðjón Þórðarson staðfesti svo við fréttavef Rúv stuttu síðar að honum hafi verið sagt upp símleiðis. Gjörningurinn væri þó ólöglegur þar sem það þyrfti að gera skriflega. Guðjón væri samkvæmt því, að forminu til að minnsta kosti, enn starfandi þjálfari BÍ/Bolungarvíkur.

Fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að BÍ/Bolungarvík þyrfti að greiða Guðjóni sex mánaða laun yrði honum sagt upp, um sex milljónir króna. Ekkert er fjallað um það í yfirlýsingunni - aðeins sagt frá því að aðilar hefðu komist að samkomulagi um starfslok.

Guðjón hefur helst verið orðaður við þjálfarastarfið í Grindavík en hann náði ágætum árangri með BÍ/Bolungarvík, sem var nýliði í 1. deild karla nú í sumar.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Meistaraflokksráð BÍ/Bolungarvíkur og Guðjón Þórðarson hafa samið um starfslok Guðjóns hjá félaginu. Guðjón var ráðinn þjálfari meistaraflokks BÍ/Bolungarvíkur síðastliðið haust og undir hans stjórn náði félagið sínum besta árangri frá upphafi á Íslandsmótinu í knattspyrnu nú í sumar. Þá náði liðið líka frábærum árangri í Valitor bikarkeppninni.

Þakka stjórnendur félagsins Guðjóni af heilum hug fyrir gott samstarf og afar vel unnin störf fyrir félagið og í þágu knattspyrnunnar fyrir vestan. Guðjón þakkar stjórnendum félagsins, styrktaraðilum, stuðningsmönnum og leikmönnum liðsins fyrir gott og farsælt samstarf."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×