Fótbolti

Óttast að Eiður Smári spili ekki meira á tímabilinu - tvífótbrotnaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen liggur hér sárþjáður í grasinu.
Eiður Smári Guðjohnsen liggur hér sárþjáður í grasinu. Mynd/aek365.gr
Eiður Smári Guðjohnsen verður líklega ekkert meira með AEK Aþenu á þessu tímabili eftir að hafa fótbrotnað í fyrri hálfleik á móti Olympiacos í grísku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Eiður Smári fór í aðgerð í gær og eftir hana er óttast að íslenski landsliðsmaðurinn verður ekki meira með AEK á þessu tímabili en í fyrstu var talið að Eiður Smári yrði aðeins frá fram að áramótum.

Eiður Smári braut tvö bein í hægri fæti eftir samstuð við Franco Costanzo markvörð Olympiacos en leikurinn fór fram á Ólympíuleikvanginum í Aþenu.

Þetta eru fyrstu alvarlegu meiðslin sem Eiður Smári verður fyrir síðan að hann fótbrotnaði í unglingalandsleik í maí 1996 þá aðeins 17 ára gamall en Eiður spilaði þá ekki aftur fyrr en í júní 1998.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×